Samkaup og við hjá Ísorku höfum gert samning þar sem Samkaup mun bjóða upp á rafhleðslustöðvar við verslanir félagsins um allt land. Áætlað er að fyrsta rafhleðslustöðin verði opnuð við verslun Nettó í Borgarnesi á komandi sumri og í kjölfarið munu aðrar verslanir bjóða upp á hleðslustöðvar.
„Þróunin á þessum markaði er gríðarlega spennandi og í upphafi þessa árs voru seldir fleiri nýir bílar sem knúnir eru rafmagni en bensíni eða dísilolíu. Verslunarnet Samkaupa nær um allt land og við búumst við að þessari þjónustu verði vel tekið af okkar viðskiptavinum sem og ferðamönnum, erlendum og innlendum,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa.
Hraðhleðslustöðvar Samkaupa verða að lágmarki 150KW og verða eingöngu hannaðar fyrir rafbíla sem geta hraðhlaðið. Þær verða settar upp við að minnsta kosti helming verslana félagsins en Samkaup rekur rúmlega 60 verslanir víðsvegar um landið undir vörumerkjunum Nettó, Krambúðin, Kjörbúðin og Iceland.
„Það er mikið ánægjuefni að fá Ísorku í lið með okkur í orkuskiptunum. Við teljum þetta bæði mikilvægan en jafnframt eðlilegan þátt í samfélagslegri ábyrgð fyrirtækisins,“ segir Gunnar Egill. „Þróunin virðist vera sú að rafknúnir bílar séu að sækja í sig veðrið og því mikilvægt að koma til móts við þær þarfir viðskiptavina okkar. Þar að auki er það stefna stjórnvalda að rafvæða samgöngur á Íslandi fyrir árið 2030 og við viljum leggja okkar af mörkum til hraðari orkuskipta og hreinni jarðar.“
"Það er frábært að geta boðið öllum að taka þátt í innviðauppbyggingu fyrir rafbíla. Lausnirnar okkar voru upphaflega hannaðar með því eina markmiði að auðvelda öllum að taka þátt," segir Sigurður Ástgeirsson, framkvæmdastjóri Ísorku.
Ísorka rekur í dag yfir 900 hleðslustöðvar á Íslandi. Um 450 þeirra eru aðgengilegar almenningi, aðrar í fjölbýlum og við fyrirtæki í skertu aðgengi. Notendur Ísorku eru yfir 5.000 og nýta að meðaltali 600 þeirra hleðslustöðvar daglega.